Hlutabréf hækka og krónan styrkist

Gengi hlutabréfa í Existu hefur hækkað um 13,5 prósent frá í morgun, langmest félaga í Kauphöllinni í dag. Gengi krónunnar hefur styrkst um 1,9 prósent á sama tíma. Þá hefur gengi bréfa í Spron hækkað um 8,3 prósent en Færeyjabanka og færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum um 6,2 prósent. Gengi bréfa í Kaupþingi, Bakkavör, Landsbankanum og Glitni hefur hækkað um rúm fjögur prósent í alþjóðlegri hækkanahrinu á hlutabréfamörkuðum í dag. Einungis gengi bréfa í Century Aluminum hefur lækkað, eða um 3,37 prósent. Úrvalvísitalan hefur rokið upp um 4,5 prósent og stendur vísitalan í 4.029 stigum. Þá hefur gengi krónunnar styrkst um 1,9 prósent og stendur gengisvísitalan í 172,5 stigum. Þetta er fyrsta samfellda styrking krónunnar frá 11. september síðastliðnum. Bandaríkjadalur kostar 92 krónur, ein evra 131,3 krónur, eitt breskt pund 166 krónur og ein dönsk 17,6 íslenskar.