Argentínumaðurinn Hector Cuper hefur verið rekinn sem þjálfari Parma. Liðið á einn leik eftir á leiktíðinni en hann er gegn Inter og skiptir miklu máli í titilbaráttunni og botnbaráttunni.
Cuper tók við af Domenico Di Carlo í mars en hefur ekki náð að koma liðinu á rétt ról. Forseti Parma, Tommaso Ghirardi, hefur nú misst alla trú á Cuper.
Andrea Manzo, þjálfari unglingaliðs Parma, stýrir liðinu í leiknum gegn Inter. Parma er í þriðja neðsta sæti ítölsku deildarinnar og þarf sigur gegn Inter um næstu helgi til að geta bjargað sér frá falli.