Erlent

Hlýnun jarðar er af manna völdum

George Soros segir loforð auðugu ríkjanna um fjárhagsaðstoð ekki nægja.fréttablaðið/AP
George Soros segir loforð auðugu ríkjanna um fjárhagsaðstoð ekki nægja.fréttablaðið/AP

Sautján hundruð vísindamenn í Bretlandi sendu frá sér yfirlýsingu í gær, þar sem þeir segjast sannfærðir um að sterk vísindaleg rök séu fyrir því að hlýnun jarðar sé af mannavöldum.

Þeir vilja þar með draga úr efasemdum um vísindalegt gildi staðhæfinga um orsakir hlýnunar jarðarinnar. Yfirlýsingin kemur í beinu framhaldi af þeim efasemdum sem kviknuðu eftir að tölvuskeyti nokkurra breskra vísindamanna var lekið til fjölmiðla, en í þeim skeytum kemur fram að vísindamennirnir hagræddu niðurstöðum rannsókna sinna á efninu.

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn er enn verið að reyna að ná samkomulagi um aðgerðir gegn hlýnun. Meðal þess sem helst strandar á er fjárhagsaðstoð til þróunarríkja, sem á að hjálpa þeim til að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Auðkýfingurinn George Soros ávarpaði ráðstefnuna í gær og segir að þeir tíu milljarðar dala, sem fyrirhugað er að auðugu ríkin leggi hinum fátækari til næstu fjögur árin, dugi engan veginn til þess að brúa bilið. „Ég held að það sé að verða ljóst í samningaviðræðunum að bilið á milli þróaðra ríkja og þróunarríkja í þessu máli geti gert út af við ráðstefnuna.“ - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×