Erlent

Fá­máll og reyndi að hylja and­lit sitt

Austurríkismaðurinn Josef Fritzl fékk í dag að heyra fyrir dómi vitnisburð dóttur sinnar sem hann er ákærður fyrir að hafa fangelsað í nær aldarfjórðung, nauðgað ofsinnis og alið með sjö börn. Við upphaf réttarhalda yfir Fritzl í dag gekkst hann við hluta þeirra brota sem hann er ákærður fyrir.

Fritzl var fámáll og reyndi að hylja andlit sitt þegar hann kom í dómssal í dag. Hann svaraði í engu spurningum fjölmiðlamanna.

Fritzl játaði fyrir dómi að hafa þvingað dóttur sína og börn til að dvelja í dýflissunni í kjallara húss síns. Hann játaði einnig á sig sifjaspell og nauðgun og að hafa skert ferðafrelsi dóttur sinnar og þeirra barna sem hún ól honum. Hann sagðist hins vegar ekki hafa orðið valdur að dauða sjöunda barnsins vegna vanrækslu líkt og hann er ákærður fyrir og sagðist ekki hafa hneppt hópinn í ánauð.

Fórnarlömbin bera ekki vitni í dómssal en átta manna kviðdómur, dómarar og Fritzl sjálfur fengu í dag að sjá upptöku af vitnisburði Elísabetar, dóttur Fritzl. Á blaðamannafundi með fulltrúa dómstólsins síðdegis kom fram að ekkert yrði gefið upp um hvað kom fram þar.

Búist er við úrskurði í málinu á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×