Viðskipti innlent

Jón Ólafsson verði stjórnarformaður Senu

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Á Sundance. Jón Ólafsson og Mike Simpson standa hér hlið við hlið á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum.
Á Sundance. Jón Ólafsson og Mike Simpson standa hér hlið við hlið á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum.

„Við vorum að leggja grunninn að rekstri hér með Jóni þegar við fréttum af því að Sena væri til sölu. Þá gerðum við tilboð í félagið. Verði því tekið er það gott. Verði því ekki tekið munum við halda settum markmiðum og setja saman á laggirnar fyrirtæki sem við stefnum á að leiði til þess að kvikmyndir verða teknar upp í mun meiri mæli hér en áður auk ýmiss konar annarrar framleiðslu og dreifingar á hugverkum auk tónleika- og viðburðahalds," segir Mike Simpson, annar tveggja stjórnenda kvikmyndadeildar bandaríska umboðsrisans William Morris Agency.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær hefur Jón Ólafsson gert tilboð í Senu í félagi við William Morris Agency. Simpson segir möguleika Senu takmarkaða í dag án utanaðkomandi erlendra aðila. „Við teljum okkur geta bætt miklu við starfemi Senu," segir hann og bætir við að talsverðar fjárfestingar séu í bígerð í þá átt. Vænta megi umtalsverðra hliðaráhrifa af því fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.

Simpson hefur verið hér á landi ásamt kollega sínum, John A. Mass, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá William Morris Agency, síðan á laugardag að kynna sér aðstæður og ræða við menn, þar á meðal hjá Latabæ, en fyrirtækið er umboðsaðili Latabæjar vestanhafs. Þeir fóru af landi brott í gær. Mass hefur umsjón með landnámi fyrirtækisins á nýja markaði og kannar viðskiptatækifæri þar sem þau gefast. „Við teljum Ísland afar spennandi kost þrátt fyrir þrengingarnar nú. Auðvitað ganga þær yfir eins og allt annað," segir Mass og bendir á að umboðsskrifstofan flaggi rúmlega aldargamalli sögu.

Hluthafar William Morris Agency eru starfsmenn sjálfir og er umboðsskrifstofan lítið skuldsett. Velgengni hennar felist ekki síst í því að hún hugsi til margra ára, stundum áratuga, í einu. „Við [William Morris Agency] erum mjög þolinmóðir fjárfestar," bendir Mass á.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær voru tilboð opnuð í Senu í gær og sá Straumur um söluferlið að beiðni stjórnar Íslenskrar afþreyingar, móðurfélags Senu.

Ásamt þeim Jóni og William Morris Agency gerðu þrír aðrir tilboð í félagið. Þar á meðal voru bíókóngurinn Árni Samúelsson, Þóroddur Stefánsson, löngum kenndur við Bónusvídeó og Vídeóhöllina, og Jón Diðrik Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Glitnis. Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, mun ekki standa að tilboðinu líkt og sagt var í gær. Niðurstöður úr tilboðsferlinu liggja fyrir á næstu dögum. Gangi áætlanir þeirra Jóns og manna Williams Morris eftir verður Jón stjórnarformaður Senu. Ekki er stefnt að breytingum á stjórnarteyminu að öðru leyti.

William Morris framleiðir ekki kvikmyndir með beinum hætti en hefur víðtæk tengsl í bandarískum afþreyingariðnaði, hvort heldur er við leikarastéttina, leikstjóra, sviðs- og íþróttafólk, tónlistarstjörnur og rithöfunda. Er horft til þess að nýta tengslin til útvíkkunar á starfsemi fyrirtækisins hér á landi, líkt og Mass bendir á.

„Jón er einn fárra einstaklinga utan Bandaríkjanna sem hefur mjög náin og dýrmæt tengsl við nokkra af æðstu stjórnendum í kvikmyndaheiminum í Hollywood," segir Simpson en þeir Jón hafa þekkst um árabil og lengi velt fyrir sér ýmsu samstarfi á borð við það sem þeir nú stefna að. „Saman sjáum við mikil tækifæri hér," segir hann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×