Enski boltinn

Manuel Neuer nú orðaður við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manuel Neuer í leik með Schalke.
Manuel Neuer í leik með Schalke. Nordic Photos / Bongarts
Samkvæmt enska dagblaðinu Daily Mail mun Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hafa augastað á Manuel Neuer, markverði þýska úrvalsdeildarfélagsins Schalke 04.

Edwin van der Sar, núverandi aðalmarkvörður United, mun líklega leggja skóna á hilluna í sumar og óvíst er hvort að Ben Foster verði treyst fyrir stöðunni sem eftirmanni hans.

United hefur einnig verið sterklega orðað við Igor Akinfeev, markvörð CSKA Moskvu, og Þjóðverjann Rene Adler hjá Bayer Leverkusen. En samkvæmt Daily Mail er Neuer nú efstur á óskalista Ferguson.

En það gæti reynst þrautin þyngri að lokka Neuer til Old Trafford þar sem hann er afar hliðhollur sínu æskufélagi. Er því líkt við að reyna að fá Steven Gerrard til að yfirgefa Liverpool.

Bayer München reyndi að kaupa Neuer í sumar en Franz Beckenbauer, forseti félagsins, viðurkenndi nýlega í viðtali að það væri afar ólíklegt að Schalke myndi selja Neuer.

Felix Magath, stjóri Schalke, skýrði afstöðu félagsins.

„Hann er táknmynd fyrir félagið og við myndum aldrei íhuga að selja hann," sagði Magath. „Hann er fæddur og uppalinn í Gelsenkirchen og var dyggur stuðningsmaður liðsins áður en hann byrjaði að spila með okkur. Hann er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins. Ef við myndum selja hann væri það eins og að rífa hjartað úr félaginu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×