Í tengslum við HönnunarMars sem hefst í dag opnaði Katrín Ólína sýningu í gær í Crymogea á Barónsstíg.
Sýninguna kallar hún Rothögg og þar verða til sýnis og sölu gripir sem hún hefur hannað. Katrín Ólína er án efa einn þekktasti hönnuður Íslendinga á alþjóðavettvangi.
Verk hennar hafa verið framleidd af fyrirtækjum á borð við DuPont®, Rosenthal, Swedese, Toshiba og Fornarina og hún hefur búið til merkingar og útlit fyrir alþjóðlegar listahátíðir og hönnunarsýningar.
Katrín Ólína hefur hlotið virt alþjóðleg hönnunarverðlaun svo sem norrænu Forum AID-verðlaunin í flokki innanhússhönnunar fyrir hönnun sína á Cristal Bar í Hong Kong.
Katrín Ólína hefur brotist út úr stakki hreinræktaðrar vöruhönnunar og skapað einstakan formheim úr draumum og ævintýraminnum, undirvitund og þjóðsögum og á grundvelli hans vinnur hún með gríðarlega fjölbreytt róf hluta, útlitshönnunar og prentgripa. Þessi formheimur tekur sér bólfestu á snjóbrettum og hjálmum, á læknastofum og börum, á postulínsdiskum, hálsklútum, veggspjöldum og í sýningum í listasöfnum og galleríum.
Verk hennar standa á mótum grafískrar hönnunar, innsetninga, útgáfu og vöruframleiðslu.
Í tilefni af hönnunardögunum HönnunarMars sýnir Katrín Ólína nýja hlið á undraheimi sínum í húsakynnum Crymogeu við Barónsstíg. Liturinn í heiminum handan spegilsins hefur fengið ærlegt rothögg svo eftir standa burðarlínur draumsins - skjárinn er brotinn. Handan við hann standa myrkurslungnar plöntur og þjóðsagnakynjuð dýr í sinni nöktustu mynd. Sýndar eru teikningar á veggjum, merkingar og nýir nytjahlutir úr smiðju Katrínar Ólínu.
Í Crymogeu eru einnig til sölu veggspjöld, töskur og postulínsdiskar sem framleiddir hafa verið fyrir Katrínu Ólínu og skarta hönnun hennar. Flestar eru þessar vörur ófáanlegar hér á landi og verða seldar við vægu verði á meðan HönnunarMars stendur.
- pbb