Innlent

Endurskoðun samþykkt - Fjármálaráðherra mjög ánægður

„Ég er mjög ánægur með að þetta sé í höfn og að þetta gekk snurðulaust fyrir sig," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) samþykkti nú síðdegis aðra endurskoðun íslands.

Ekki var óskað eftir atkvæðagreiðslu um málið en fulltrúar Breta og Hollendinga sitja í stjórn AGS. Eins og kunnugt er hefur staðið á láninu vegna Icesave-deilunnar.

Þá er yfirlýsing norræna fulltrúans afar mikilvæg að sögn Steingríms en í því er fólgið vilyrði um að norrænu lánin munu verða greidd út ásamt lánum AGS. Það er þó ekki endanlega staðfest en líklegt að það skýrist eftir helgi. Því er um umtalsverða lánafyrirgreiðslu að ræða.

„Þetta tókst samt ekki án fyrirhafnar," segir Steingrímur en hann ásamt Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, fóru á fund með AGS fyrir um mánuði síðan þar sem reynt var að sannfæra sjóðinn um að það væri ekki boðlegt lengur að tengja lánið við Icesave. Svo virðist sem á það hafi verið hlustað og því fékk Ísland endurskoðun nú.

Steingrímur segir of snemmt að segja til um stöðu mála nú varðandi upphafleg markmið ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Hann veit ekki hvort það sé breytt eða hvort setja þurfi ný markmið.

Hann segir þjóðarbúið hinsvegar í mun betra skjóli nú heldur en áður eftir að endurskoðunin var samþykkt.

„Þetta þýðir að við þolum tafir og óvissu í framtíðinni," segir Steingrímur sem er afar sáttur við stöðu mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×