Skoðun

Síðasta tækifærið forgörðum

Guðbrandur Einarsson skrifar

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar hinn 29. júlí sl. var samþykkt að heimila skuldarabreytingu á kúluláni sem gefið var út þegar Reykjanesbær seldi Geysi Green Energy hlut sinn í HS orku. Breytingin fólst í því að Magma Energy yfirtæki lánið sem GGE hafði gefið út og yrði þar með greiðandi lánsins. Allir ráðsmenn Sjálfstæðisflokksins að viðbættum fulltrúa Framsóknarflokksins sem væntanlega er farinn að borga sjálfstæðismönnum fyrir sæti sitt í bæjarráði, greiddu þessu atkvæði sitt. Nýr fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði hafði enga skoðun á málinu og sat hjá.

Það mátti auðvitað reikna með að sjálfstæðismenn samþykktu þennan gjörning en afstaða fulltrúa Framsóknar og Samfylkingar í þessu máli er algjör kúvending borin saman við afstöðu fulltrúa sömu flokka í síðustu bæjarstjórn.

Það hefur komið í ljós í umræðu undanfarinna vikna og mánaða að mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að HS orka verði í höndum einkaaðila með tilheyrandi framsali á nýtingarrétti náttúruauðlinda. Til þess að koma til móts við þennan vilja íslensku þjóðarinnar gat bæjarráð hafnað þessari skuldarabreytingu sem hefði væntanlega gert það að verkum að Magma hefði hætt við þessi viðskipti sem að mestu leyti eru fjármögnuð með yfirtöku á lánum og aflandskrónum.

Þarna fór því forgörðum síðasta tækifærið, sem við höfðum til þess að koma í veg fyrir þessi viðskipti, án þess skapa íslensku þjóðinni milljarða skaðabótaskyldu ef til riftunar kæmi. Skilanefndir bankanna geta því fullnustað viðskipti sín við Magma Energy. Bæjarráðsmenn í Reykjanesbæ hafa engan áhuga á því að reyna að koma í veg fyrir það.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×