Matur

Einfaldur og vinsæll eftirréttur: Engiferís með súkkulaði­spæni

Eva Einarsdóttir er sannkallaður ástríðukokkur. 
Eva Einarsdóttir er sannkallaður ástríðukokkur.  Vísir/Stefán

Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi Besta flokksins, er nú í fæðingarorlofi en segist hafa nóg fyrir stafni og er auk þess spennt fyrir að snúa aftur til starfa. Eva hefur gaman af því að laga mat og er dugleg að halda matarboð. Einnig heldur hún úti eigin matar­bloggi á vef­síðunni midjan.is.

Hún kveðst hafa ákveðið að deila uppskrift að eftirrétti með lesendum eftir svolitla umhugsun, enda betur að sér í gerð aðalrétta að eigin sögn. Eftir að hún ákvað að slá til byrjaði hún á að gramsa aðeins í uppskriftarbókunum og valdi að lokum einfaldan ís.

„Úr varð að ég valdi þann eftir­rétt sem ég hef oftast gert og er ofureinfaldur. Þennan góða ís fékk ég fyrst hjá Hólmfríði Önnu Baldurs­dóttur fyrir nokkrum árum. Þá hélt hún árshátíð starfsmanna Unicef heima hjá sér, en ég var í starfsnámi þar. Mér fannst ísinn hið mesta sælgæti og síðan þá hef ég gert hann mjög oft og hann fellur alltaf vel í kramið hjá fólki."

Sérgrein Evu er ljúffengir og hollir aðalréttir en hér sýnir hún á sér nýja hlið með uppskrift að einföldum og góðum engiferís.Vísir/Stefán

Spurð um matar­hefðir á jólunum segir Eva hnetusteik og möndlugraut vera á borðum hjá hennar fjölskyldu á aðfangadagskvöld. „Við hjónin borðum yfirleitt hnetusteik á jólunum, þar sem við erum grænmetisætur. En á gamlárs­kvöld borðum við grænmetishleif, innbakaðan í smjördegi, og heimalagaðan ís sem tengdamóðir mín lagar svo snilldar­lega.“

Engiferís með súkkulaði­spæni

  • 1 l vanilluís
  • 2-4 bitar af sultuðum engifer
  • 1 poki dökkur súkkulaðispænir eða 1-2 plötur af góðu dökku súkkulaði sem búið er að mylja niður

Skellið þessu öllu í matvinnsluvél og hrærið í smá stund, þangað til allt hefur blandast vel saman. Fólk þarf í rauninni að prófa sig áfram, bæði með engiferinn og súkkulaðið. Látið í skálar, stráið smá súkkulaði yfir sem haldið var til haga og skreytið til dæmis með blæjuberi eða stjörnuávexti. Hægt er að búa ísinn til með góðum fyrirvara og geyma hann í frysti.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.