Gylfi Ægisson verður með tónleika á Faktorý í kvöld. Þar ætlar hann að spila flest af sínum vinsælustu lögum, þar á meðal Minningu um mann og Stolt siglir fleyið mitt.
„Ég hef spilað þarna áður í afmæli en það má segja að þetta séu fyrstu stóru tónleikarnir í langan tíma þar sem ég er alveg einn," segir Gylfi. „Ég hef verið að spila þetta prógramm í afmælum og skemmta hjá íþróttafélögum og það hefur gengið mjög vel."
Gylfi Ægisson fæddist og ólst upp á Siglufirði í umróti síldaráranna. Árið 1974 kom út platan Gylfi Ægisson sem rokseldist og fleiri sólóplötur fylgdu í kjölfarið. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 en efri hæðin verður opnuð kl. 21. Aðgangseyrir er 1.000 krónur.