Lífið

Ekki hrifinn af verðlaunahátíðum

Leikarinn Jeff Bridges er ekki hrifinn af verðlaunahátíðum. Honum finnst þær ganga of hratt fyrir sig.
Leikarinn Jeff Bridges er ekki hrifinn af verðlaunahátíðum. Honum finnst þær ganga of hratt fyrir sig.

Þrátt fyrir að hafa fengið fjölda verðlauna að undanförnu fyrir leik sinn í myndinni Crazy Heart hefur Jeff Bridges ekki gaman af verðlaunahátíðum.

Hinn sextugi Bridges fékk nýverið Golden Globe-verðlaunin í fyrsta sinn fyrir hlutverkið og margir telja næsta víst að Óskarinn falli honum einnig í skaut í fyrsta sinn í mars. „Þær hræða mig,“ sagði hann um verðlaunahátíðir. „Þær ganga aðeins of hratt fyrir sig. Ég vil að hlutirnir gangi hægar fyrir sig. Ef þú hægir ekki á þér missirðu af því sem er að gerast í kringum þig. Þegar ég verð að halda í við þennan hraða geri ég það en ég vil ekki leggja það í vana minn.“

Hann segist einnig hafa áhuga á að leika í smærri myndum. „Ég myndi þiggja 200 milljónir dollara fyrir að leika í fimm góðum myndum í staðinn fyrir einni lélegri. Ég er ekkert á móti stórum myndum en mér finnst ódýrari myndir oftast vera með bestu handritin.“

Bridges lék á síðasta áratug aðalhlutverkið í mynd Coen-bræðra, The Big Lebowski, sem hefur hlotið aukið fylgi á meðal kvikmyndanörda með árunum. Hann undrast þessar miklu vinsældir. „Þessi mynd kemur mér sífellt á óvart. Ég var undrandi yfir því að hún varð ekki stærri í Bandaríkjunum þegar hún kom út. Ég var jafn undrandi yfir því að hún varð miklu vinsælli í Evrópu. Síðan öðlaðist hún þessar „költ“-vinsældir. Þessi mynd er orðin miklu stærri en ég gat nokkru sinni gert mér í hugarlund,“ sagði Bridges.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×