Innlent

Hélt að Davíð væri að grínast

„Ég hélt fyrst að hann væri að grínast," segir Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um það þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði honum frá því að ákveðið hefði verið að lækka stýrivexti úr 15,5 prósentum í 12 prósent.

Upplausnarástand var í Seðlabankanum fyrstu dagana í október 2008. Tilkynning um risalán frá Rússum sem enginn fótur var fyrir og misheppnuð tilraun til að festa gengi krónunnar skapaði ringulreið. Þrátt fyrir vinnureglur þar um höfðu bankastjórarnir sérfræðinga sína og næstráðendur lítt með í ráðum.

„Þetta var algjörlega stjórnlaust," segir Arnór sem kallaður var til Davíðs til að heyra um vaxtaákvörðunina. „Mér var tilkynnt sú ákvörðun fimm mínútum áður en hún fór á vefinn." Þegar Arnór áttaði sig á að Davíð væri ekki að grínast var honum öllum lokið. „[Ég] vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta," segir Arnór sem nú er aðstoðarbankastjóri Seðlabankans.

„Bankinn var bara hreint út sagt bara stjórnlaus," segir Þórarinn G. Pétursson, hagfræðingur hjá bankanum, sem kveðst hafa ritað í dagbók sína þann dag sem ákveðið var að festa gengið með einhverri tölu „út í bláinn" sama dag og sagt var frá Rússaláninu:

„Enn eitt ruglið." Þórarinn segir að Arnór hafi verið gjörsamlega niðurbrotinn. „Þetta var algerlega skelfilegt."- gar

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×