Haukar og Keflavík geta tryggt sér sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í kvöld. Bæði lið komust í 1-0 um helgina í einvígum sínum í sex liða úrslitum en það lið kemst áfram sem fyrr vinnur tvo leiki.
Bikarmeistarar Hauka taka á móti Grindavík á Ásvöllum klukkan 19.15. Haukar unnu 88-82 sigur í hörkuleik í Grindavík á laugardaginn þar sem Heather Ezell átti enn einn stórleikinn. Heather Ezell var með 35 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar í leiknum en hún hefur skorað mest að meðaltali gegn Grindavík á þessu tímabili af öllum liðum deildarinnar.
Snæfellskonur taka á móti Keflavík í Stykkishólmi í fyrsta heimaleik kvennaliðs félagsins í úrslitakeppni. Keflavík vann fyrri leikinn 95-82 eftir jafnan leik en Keflavík tryggði sér sigurinn með því að vinna síðustu fimm mínútur leiksins 26-10. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 32 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar fyrir Keflavík í leiknum.
KR og Hamar komust beint inn í undanúrslitin með því að enda í tveimur efstu sætunum í A-deildinni. KR mætir því liði sem endaði neðar í töflunni af þeim liðum sem tryggja sér sigur í sex liða úrslitunum. Klári Haukar og Keflavík sína leiki í kvöld þá munu sem dæmi KR-Haukar og Hamar-Keflavík mætast í undanúrslitunum.
