Skoðun

Af atvinnusköpun og fjöldamorðum

Orð fá ekki lýst þeim þjáningum sem styrjaldir leiða yfir mannkynið. Nú á tímum er hernaðarbröltið knúið áfram af ráðamönnum, alþjóðastofnunum, skæruliðasamtökum og ótal hagsmunaaðilum. Jafnframt má nefna einkarekin hernaðarfyrirtæki sem selja þjónustu sína nánast hverjum sem er. Slík fyrirtæki þrífast beinlínis á hernaði og auka þannig eftirspurnina eftir stríði.

Eitt þessara fyrirtækja nefnist ECA Program, en fyrr á árinu sótti það um starfsleyfi á Keflavíkurflugvelli í því skyni að flytja þangað orrustuþotur, viðhalda þeim og leigja út til heræfinga. Fyrirtækið er umdeilt og eignarhald þess óljóst, enda var því neitað um starfsleyfi í Kanada. Þrátt fyrir það hyggjast Árni Sigfússon og fleiri Suðurnesjamenn taka fyrirtækinu opnum örmum.

Við Íslendingar heyrum iðulega fréttir af stríðshörmungum úti í heimi, en í hugum okkar flestra eru þær fjarlægar og óraunverulegar. Vandamál á borð við atvinnuleysi standa okkur miklu nær. Þótt áætlað sé að umrætt fyrirtæki sjái 150 Suðurnesjamönnum fyrir vinnu má ekki gleyma þeim milljónum jarðarbúa sem eiga um sárt að binda eftir árásir herja sem nýta sér þjónustu af því tagi sem ECA Program vill flytja til Keflavíkur. Því ættum við að velta fyrir okkur eftirtöldum spurningum: Viljum við leggja blessun okkar yfir starfsemi sem hefur fjöldamorð að féþúfu? Erum við tilbúin að láta siðgæðið lönd og leið fyrir atvinnusköpun? Leyfir samviskan okkur að græða á starfsemi sem þrífst á því að fólk úti í heimi murki lífið hvert úr öðru? Og vilja Suðurnesjamenn virkilega selja sál sína fyrir atvinnu?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×