„Hann hefur mikla samúð með Íslendingum og íslenskum málstað í sambandi við hrunið. Hann fær lesendur til að finna til með Íslendingum,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Veröld.
Bókin Hringnum lokað eftir enska rithöfundinn Michael Ridpath er nýkomin út hér á landi. Hún er sú fyrsta í nýrri bókaröð þar sem aðalöguhetjan er íslenski rannsóknarlögreglumaðurinn Magnús Jónsson sem býr í Boston. Hann er á flótta undan harðsvíruðu glæpagengi og leitar skjóls á Íslandi en hann hefur ekki komið þangað í tvo áratugi.
„Vaka-Helgafell gaf út bók eftir hann fyrir um fimmtán árum sem hét Myrkraverk. Þá kom hann til Íslands til að kynna bókina og hann ákvað þá að einhvern tímann myndi hann nota Ísland sem sögusvið,“ segir Pétur Már.
Sú bók fjallaði um verðbréfaviðskipti, enda er Ridpath fyrrverandi verðbréfasali.
„Þegar hann byrjaði að skrifa þessa bók [Hringnum lokað] mundi hann að ég hefði gefið út Myrkraverk og sendi mér handritið og spurði mig hvort ég væri til í að tékka á staðreyndum. Það var mjög gaman,“ segir hann. „Bæði er þetta mjög fín bók og svo er þetta skemmtilegur og indæll náungi.“
Ridpath, sem hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í tuttugu ár, ætlar að koma hingað til lands 13. nóvember til að fylgja bókinni eftir. - fb