Innlent

Breskir fjölmiðlar vilja líka rannsóknarnefnd

Andri Ólafsson skrifar

Breskir fjölmiðlar segja að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verði til þess þrýstingur aukist á bresk stjórnvöld að gera svipaða skýrslu.

Breski seðlabankinn er einnig gagnrýndur í umfjöllun fjölmiðla fyrir að láta ekki þarlenda sparifjáreigendur vita af vitneskju sinni um slæma stöðu íslensku bankanna.

Hið virta dagblað Washington Post segir að skýrslan sýni að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson hafi gerst sekir um alvarlega vanrækslu og vitna til orð Jóhönnu Sigurðardóttur um að frekari aðferða sé þörf til að bæta stjórnsýsluna hér á landi.

Financial Times segir að skýrslan sýni hvernig Landsbankinn hafi dregið lappirnar við að koma Icesave-reikningum í dótturfélag og það hafi reynst íslenskum skattgreiðendum dýrkeypt.

The Daily Mail fókuserar líka á Icesave og segir að skýrslan sýni að enski seðlabankinn hafi vitað af slæmri stöðu íslensku bankanna en sleppt því að vara breska sparifjáreigendur við.

Haft er eftir þingmanni breska íhaldsflokksins að þetta sé enn dæmi um að eftirlitstofnanir í forræði Gordons Brown brugðist.

The Independent segir að niðurstöður skýrslunnar auki á þrýsting um að svipuð rannsóknarnefnd verði settar á laggirnar í Bretlandi til að rannsaka orsakir þess að breska ríkið neyddist til að þjóðnýta tvo banka og dæla þúsund milljónum punda inn í bankakerfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×