Skoðun

Ný kröfugerð verkalýðssamtaka?

Svavar Gestsson skrifar
Verður kröfugerð Alþýðusambandsins á næstu mánuðum um félagslegar aðgerðir í stað kauphækkana sem ekki er innistæða fyrir? Mun ASÍ gera kröfu um endurreisn félagslega íbúðakerfisins? Spurt er í framhaldi af setningarræðu forseta ASÍ á þingi samtakanna á dögunum. Síðastliðið vor skrifaði ég greinar í þetta blað þar sem ég hvatti til nýrrar kröfugerðar Alþýðusambandsins einkum í húsnæðismálum og í samgöngumálum í þéttbýli.

Enginn tók undir þessar hugmyndir í kosningabaráttunni síðastliðið vor. Forseti Alþýðusambandsins skammaði stjórnmálaflokkana fyrir að hafa eyðilagt félagslega íbúðakerfið. Staðreyndin er sú að hann hefði átt að skamma verkalýðssamtökin; þau hreyfðu engum mótmælum þegar félagslega kerfið var eyðilagt. Og þeir stjórnmálaflokkar sem nú fara með stjórn landsins voru varla til þegar kerfið var eyðilagt.

1980 settum við lög um húsnæðismál þar sem gert var ráð fyrir því að þriðjungur íbúðabygginga í landinu yrði á félagslegum grundvelli. Hinir áttu að reyna að klára sín mál sjálfir með lánum frá lífeyrissjóðum og bönkum. Þessi lagasetning réði úrslitum um húsnæðismál alþýðufjölskyldna þúsundum saman.

Núna í kreppunni þegar þetta kerfi hefur verið eyðilagt kemur best í ljós hve fráleit þessi skemmdarverk voru.

Mun Alþýðusambandið kannski setja fram kröfur um félagslegt íbúðakerfi í næstu kjarasamningum? Er kannski komið að því að verkalýðsfélögin setji fram kröfur um félagslegar endurbætur í kjarasamningum? Þær kröfur gætu snúist um að verja velferðarkerfið og svo að bæta það.

Meginmunurinn á lífskjörum ungra fjölskyldna á Íslandi og á Norðurlöndunum hinum liggur í kostnaði við húsnæði og kostnaði við að komast í vinnuna eða til þjónustustofnana. Nútíma verkalýðshreyfing ætti því að gera kröfur um bættar almenningssamgöngur og um nýtt félagslegt íbúðakerfi í næstu kjarasamningum.

Að vísu er ekki víst að ASÍ eigi í þessum efnum samleið með svokölluðum samtökum atvinnulífsins; en það gildir væntanlega einu. Aðalatriðið hlýtur að vera að verkalýðsforystan eignist samstöðu með fólkinu í verkalýðshreyfingunni.

 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×