Fótbolti

Ranieri hættur hjá Roma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. Nordic Photos / AFP
Claudio Ranieri sagði í kvöld starfi sínu lausu sem knattspyrnustjóri Roma sem leikur í ítölsku úrvalsdeildinni.

Roma tapaði í dag fyrir Genoa á útivelli, 4-3, eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik.

Þetta var fjórða tap liðsins í röð en liðið er nú í áttunda sæti deildarinnar, níu stigum á eftir Lazio sem er í fjórða sæti deildarinnar, því síðasta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Ranieri stýrði áður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og tók við Roma árið 2009. Hann hefur einnig þjálfað Juventus og fleiri lið á Ítalíu, sem og Valencia og Atletico Madrid á Spáni.

Roma tapaði í vikunni fyrir Shakhtar Donetsk í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, 3-2 á heimavelli.

Undanfarið hafa borist fregnir af því að bandarískir fjárfestar hafi hug á að kaupa félagið sem hefur átt í fjárhagslegum vandræðum síðustu misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×