Innlent

Vilhjálmur vill samþykkja samninginn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson segir að Icesave sé hindrun sem þurfi að ryðja úr veginum. Mynd/ GVA.
Vilhjálmur Egilsson segir að Icesave sé hindrun sem þurfi að ryðja úr veginum. Mynd/ GVA.
„Ég tel að það yrði skynsamlegt fyrir þjóðina að samþykkja samninginn," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Vísi. Hann vill þó ekki spá neitt fyrir um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan mun fara. Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði Icesave lögunum staðfestingar í dag, eins og fram hefur komið.

„Icesave er ein af þeim hindrunum sem þarf að yfirstíga til að atvinnulífið komist á fleygiferð, en það eru ýmsar aðrar hindranir sem þarf líka að yfirstíga," segir Vilhjálmur. Hann segir að skoða þurfi hlutina í samhengi og það þurfi að yfirstíga þær allar til þess að ná fjárfestingu á fullt á Íslandi og draga úr atvinnuleysi.

Vilhjálmur bendir á að auk þess að semja um Icesave þurfi að koma fjármagnsmarkaðnum í gang og afnema gjaldeyrishöft. Þá þurfi að stíga skref í stórfjárfestingum eins og Helguvík víðar. „Það eru nokkrar meginhindranir sem þarf að yfirstíga," segir Ólafur Ragnar. „En ég tel að samningurinn sem slíkur sé þess eðlis að það sé betra að klára málið og hreinsa þessa hindrun út heldur en að bíða ," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×