Erlent

Íslendingur í Japan býr sig undir tsunami

Frá skjálftasvæðinu, um 200 metra norður af Tókíó
Frá skjálftasvæðinu, um 200 metra norður af Tókíó AFP PHOTO / HO / NHK
Hinrik Örn Hinriksson, skiptinemi í Japan, heyrði fyrst af jarðskjálftanum þegar hann fékk sms-skilaboð frá vini sínum sem sagði honum að halda sig inni. Hinrik býr í borginni Beppu í Oita-héraði sem er nokkuð langt frá upptökum skjálftans. Þar er engu að síður búist við tsunami-fljóðbylgjum og fara þyrlur reglulega með ströndinni til að fylgjast með sjóhæð. Vegna þessa er einnig byrjað að rýma íbúðir við ströndina sem standa á jarðhæð.

„Fólki er auðvitað brugðið og fólk býr sig undir öfluga eftirskjálfta. Ég á marga vini sem búa á Tókíó-svæðinu og við höfum öll verið í sambandi við hvort annað, þau okkar sem eru hér í námi. Allir hafa það gott. Ein var í leikfimitíma og sagði að húsið hefði skolfið í eina mínútu. Önnur vinkona mín hljóp undir skrifborð hjá sér, en ekkert amar að neinum enda Íslendingar og vön því að jörðin láti vita af sér," segir Hinrik.

Hinrik Örn Hinriksson hefur verið í sjö mánuði sem skiptinemi í Japan
Hann er búsettur við ströndina, á 7. hæð í stórri blokk, og telur sig nokkuð öruggan. Hann fór út í búð eftir að stóri skjálftinn reið yfir og þar var fólk almennt frekar rólegt. Hinrik tekur þó fram að strandgæslan sinni eftirliti við ströndina og beini fólki í burtu ef það kemur of nálægt henni, vegna hættu á tsunami.

Símalínur liggja víða niðri en íslenska sendiráðið í Japan leggur áherslu á að ná í sem flesta Íslendinga á svæðinu. Tölvupóstur og Facebook hafa þar komið að góðum notum. Hinrik hefur sjálfur sent tölvupóst til þeirra vina sinna og kunningja sem hann hefur enn ekki heyrt frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×