Erlent

Tíu metra flóðbylgja skall á hafnarbæ

Tíu metra há flóðbylgja skall á hafnarbænum Sendai á norðausturströnd Japans í kjölfar hins öfluga skjálfta sem reið yfir í morgun undan ströndum Japans. Fréttamyndir sýna að bylgjan hefur hrifið með sér bíla og hús og miklir eldar loga í olíubirgðastöð við höfnina. Fyrstu fregnir hermdu að skjálftinn væri um 7,9 stig en nú hefur verið staðfest að hann mældist 8,9 stig. Engar fregnir hafa borist af manntjóni en nokkrir slösuðust í Tókíu þegar þak á skólabyggingu gaf sig.

Stórir eftirskjálftar hafa riðið yfir í kjölfarið og stóri skjálftinn fannst í Beijing höfuðborg Kína en hún er í 2400 kílómetra fjarlægð frá upptökunum.

Flóðbylguviðvörun er enn í gildi og er búist við því að bylgjan skelli á Tævan um klukkan hálftíu að íslenskum tíma.

Samgöngur hafa lamast á svæðinu og hefur flugvöllum verið lokað.


Tengdar fréttir

Öflugur skjálfti undan ströndum Japans - flóðbylgjuviðvörun gefin

Öflugur jarðskjálfti, 8,8 á richter-kvarðanum, reið yfir norðausturströnd Japans í morgun.Byggingar í höfuðborginni Tókíó skulfu í nokkrar mínútur og fólk þusti út á götur borgarinnar en engar fregnir hafa borist af manntjóni. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir stórt svæði og gæti bylgjan orðið allt að sex metra há en viðvörunin gildir fyrir Japan, Rússland, Guam, Tæwan og Fillipseyjar. Einnig hefur viðvörun verið gefin út fyrir Indónesíu og Hawaí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×