Erlent

Öflugur skjálfti undan ströndum Japans - flóðbylgjuviðvörun gefin

Öflugur jarðskjálfti, 8,8 á richter-kvarðanum, reið yfir norðausturströnd Japans í morgun.Byggingar í höfuðborginni Tókíó skulfu í nokkrar mínútur og fólk þusti út á götur borgarinnar. Lögregla segir að margir hafi slasast þegar þak á skólabyggingu gaf sig en þar var margt fólk komið saman til þess að fagna útskrift.

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir stórt svæði og gæti bylgjan orðið allt að tíu metra há en viðvörunin gildir fyrir Japan, Rússland, Guam, Tæwan og Fillipseyjar. Einnig hefur viðvörun verið gefin út fyrir Indónesíu og Hawaí.

Þegar hafa borist fregnir af flóðbylgjum sem náðu landi næst upptökum skjálftans en þau voru um 125 kílómetra undan ströndum landsins og varð skjálftinn á um tíu kílómetra dýpi. Fréttamyndir sýna flóð í strandbænum Onihama og eldur hefur komið upp í að minnsta kosti einni byggingu á hafnarsvæði í einum bænum.

Á myndunum má sjá bíla veltast um í flóðinu og bátar hafa einnig slitnað upp og fljóta með. Bylgjan tók einnig með sér hús og önnur mannvirki. Nokkrir skjálftar hafa riðið yfir sama svæði síðustu daga, þar á meðal einn af stærðargráðunni 7,3 á richter á miðvikudag.

Eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, þar á meðal einn af stærðinni 7,4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×