Japönsk yfirvöld óttast nú að gat sé á einum kjarnakljúfinum í Fukushima Kjarnorkuverinu. Reynist þetta raunin eykst verulega hættan á alvarlegri geislamengun frá verinu sem varð illa úti í Jarðskjálftanum í Japan á dögunum og í flóðbygjunni sem kom á eftir.
Hidehiko Nishiyama, talsmaður kjarnorkustofnunar Japans, sagði í morgun að vísbendingar séu um að skemmdir hafi orðið á kjarnakljúfi númer þrjú í verinu en í því eru sex kjarnaofnar. Hann segist þó vongóður um að skemmdirnar séu ekki svo alvarlegar en erfitt er að meta það þar sem enginn kemst inn í byggingarnar sem hýsa sjálfa ofnana. Skemmdirnar á ofninum, reynist þetta rétt, gætu einnig hafa orðið þegar vetni sprakk með miklum hvelli í verinu þann 14 mars síðastliðinn nokkrum dögum eftir að skjálftinn reið yfir.
Tala látinna eftir jarðskjálftann í Japan og flóðbylgjuna sem kom á eftir er nú komin yfir tíu þúsund. Rúmlega sautján þúsund manns er enn saknað og tæplega þrjú þúsund manns liggja slasaðir á sjúkrahúsum landsins. Mörg hundruð þúsund manns misstu heimili sín í hamförunum og er farið að gæta matar- og vatnsskorts á sumum svæðum.
Starfið heldur áfram í Fukushima kjarnorkuverinu þar sem menn berjast við að hemja geislunina frá kjarnakljúfunum. Tveir starfsmenn voru fluttir á spítala í gær eftir að hafa orðið fyrir mikilli geislun við vinnu sína.
Erlent