Fótbolti

Xavi spilar sinn hundraðasta landsleik á föstudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernández.
Xavi Hernández. Mynd/AP
Þetta er mikið tímamóta-tímabili fyrir Xavi Hernández, miðjumann Barcelona og spænska landsliðsins. Hann bætti leikjamet Barcelona í janúar og á föstudagskvöldið mun hann leika sinn hundraðasta landsleik þegar Spánn mætir Tékklandi í undankeppni EM.

„Ég á enn fullt af leikjum eftir. Ég er mjög stoltur að hafa náð að spila svona marga landsleiki en ég er hvergi nærri hættur með landsliðinu," sagði hinn 31 árs gamli Xavi við spænska blaðið AS en Xavi spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2000 þegar hann var tvítugur.

Xavi man vel eftir tímanum þegar ekkert gekk hjá spænska landsliðinu en það er allt breytt í dag enda spænska landsliðið bæði ríkjandi Heims- og Evrópumeistari.

„Þegar allt gekk á afturfótanum þá hjálpaði fjölskyldan manni í gegnum þetta. Ég var mjög heppinn hvað það varðar en það hefur verið frábært að upplifa velgengnina síðustu ár," sagði Xavi.

„Það er frábært að sjá alla þjóðina sameinast á bak við landsliðið. Hárin risu hjá manni þegar maður sá allt fólkið fagna okkur á götunum," sagði Xavi sem er enn einn allra besti miðjumaður heims og á enn nóg eftir í boltanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×