Fótbolti

Fyrsta tap Mourinho á heimavelli í níu ár - vann 150 leiki í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho hafði ekki tapað í 150 deildarleikjum í röð.
Jose Mourinho hafði ekki tapað í 150 deildarleikjum í röð. Nordic Photos / AFP
Í dag batt Sporting Gijon enda á níu ára taplaust tímabil Jose Mourinho knattspyrnustjóra í deildarleikjum á heimavelli. Á þessum níu árum léku lið Mourinho 150 deildarleiki í röð án taps.

Gijon vann þá 1-0 sigur á Real Madrid en með tapinu minnkuðu vonir síðarnefnda liðsins um spænska meistaratitilinn verulega. Barcelona á reyndar eftir að spila við Villarreal á útivelli síðar í dag.

Síðast tapaði Mourinho deildarleik á heimavelli er hann var stjóri Porto í Portúgal. Liðið tapaði þá fyrir Beira-Mar, 3-2, þann 23. febrúar árið 2002. Það var reyndar eina tap Mourinho í deildarleik á heimavelli á ferlinum til þessa.

Síðan þá hefur hann stýrt Chelsea, Inter og nú Real Madrid með glæsilegum árangri. Lið hans virtust ósigrandi á heimavelli, þar til í dag.

Miguel skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu með skoti úr teig. Madrídingar sóttu stíft eftir þetta en tókst ekki að skora, þrátt fyrir að hafa fengið nokkur dauðafæri.

Margir af lykilmönnum Real voru fjarverandi í dag, vegna meiðsla eða af öðrum ástæðum. Þeirra á meðal má nefna Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og Xabi Alonso.

Ef Barcelona vinnur í kvöld nær liðið átta stiga forystu á toppi deildarinnar þegar átta umferðir eru eftir af deildinni.

Sporting Gijon hoppaði upp í ellefta sæti deildarinnar með sigrinum ótrúlega í kvöld.

150 leikir Mourinho án taps:

Porto 38 leikir (36 sigrar, tvö jafntefli)

Chelsea 60 leikir (46 sigrar, fjórtán jafntefli)

Inter 38 (29 sigrar, níu jafntefli)

Real Madrid 14 (14 sigrar)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×