Hildur Sigurðardóttir skrifaði í dag undir samning við Snæfell og mun hún leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik næstu tvö árin. Hildur hefur verið lykilmaður í KR-liðinu undanfarin ár en hún er fædd og uppalinn í Stykkishólmi og mun hún styrkja hið unga lið Snæfells gríðarlega. Jón Ólafur Jónsson skrifaði einnig undir tveggja ára samning við Snæfell í dag.
Ingi Þór Steinþórsson sem þjálfar bæði karla og kvennalið félagsins sagði við visir.is í dag að það væri mikill fengur að fá Hildi. „Hún er góður leikmaður sem mun styrkja okkar unga lið gríðarlega. Í vetur var ég með tvo erlenda leikmenn auk Öldu Jónsdóttur en þær voru þær einu sem ekki voru gjaldgengar í unglingaflokk félagsins," sagði Ingi Þór.

