Fótbolti

Real Madrid sigraði Valencia í níu marka leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kaká fagnar marki í dag. Mynd. / Getty Images
Kaká fagnar marki í dag. Mynd. / Getty Images
Það var sannkölluð markaveisla á Mestalla, heimavelli Valencia, í dag þegar Real Madrid kjöldró heimamenn 6-3.

Staðan var 4-0 í hálfleik og martröð heimamanna rétt að byrja. Það var greinilegt á leikmönnum Real Madrid að þeir eru ekki búnir að gefast upp á deildarmeistaratitlinum.

Eftir um 60 mínútur var staðan 6-1 fyrir gestina,en Valencia náði aðeins að klóra í bakkann í lokin og niðurstaðan því 6-3 sigur lærisveina Jose Mourinho, framkvæmdastjóra Real Madrid.

Gonzalo Higuaín, leikmaður Real Madrid, skoraði þrennu í dag, Kaká gerði tvö mörk og virðist vera finna sitt gamla form. Franski landsliðsmaðurinn, Karim Benzema, skoraði eitt mark fyrir gestina.

Real Madrid er í öðru sæti deildarinnar með 80 stig eftir sigurinn í dag, en Barcelona eru með 85 stig í því fyrsta og eiga leik til góða síðar í kvöld gegn Osasuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×