Fótbolti

Ronaldo búinn að jafna markametið á Spáni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk er Real Madrid vann 3-1 sigur á Villarreal í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann er því búinn að skora 38 mörk í deildinni í vetur sem er metjöfnun. Bæði mörk Ronaldo komu úr aukaspyrnum, það síðara í uppbótartíma.

Hann hefur þar með jafnað markametið sem var sett fyrir 60 árum síðan. Telmo Zarra, leikmaður Athletic Bilbao, skoraði þá 38 mörk í deildinni en Hugo Sanchez jafnaði metið svo fyrir 21 ári síðan.

Mexíkóinn Sanchez er einn frægasti leikmaður Real Madrid frá upphafi en Ronaldo getur bætt metið þegar Real Madrid mætir Almeria í lokaumferðinni um næstu helgi.

Marcelo skoraði fyrsta mark Real í leiknum en Cani minnkaði muninn fyrir Villarreal í stöðunni 2-0.

Ronaldo hefur skorað sjö mörkum meira en Argentínumaðurinn Lionel Messi í deildinni en báðir hafa skorað meira en 50 mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Ronaldo 51 og Messi 52 sem er met.

Messi spilaði þó ekki með Barcelona í kvöld þar sem Pep Guardiola stilltu upp hálfgerðu varaliði er Börsungar gerðu markalaust jafntefli við Deportivo á heimavelli. Barcelona tryggði sér á dögunum Spánarmeistartitilinn og mætir Malaga á útivelli í lokaumferðinni.

Börsungar halda svo til Lundúna þar sem liðið mætir Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þann 28. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×