Innlent

Of snemmt að fullyrða um goslok

Vísindamennirnir stigu upp í vél Landhelgisgæslunnar á tíunda tímanum
Vísindamennirnir stigu upp í vél Landhelgisgæslunnar á tíunda tímanum Mynd Sigurjón
Of snemmt er að fullyrða að gosinu í Grímsvötnum sé lokið. Lítil virkni mælist í gosstöðvunum og í morgun bárust myndir af svæðinu þar sem aðeins gufa sást stíga upp úr gígnum.

„Þetta hefur fallið verulega niður en þeir segja að þetta sé enn virkt," segir Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á embætti ríkislögreglustjóra.

Hópur vísindamanna lagði af stað í vél Landhelgisgæslunnar að gosstöðvunum nú á tíunda tímanum. Hjálmar býst við þeim úr könnunarleiðangrinum um hádegisbilið og verður þá betur hægt að segja til um stöðuna á gossvæðinu. Hann bendir á að það hafi ekki verið vísindamenn sem vitnuðu um goslokin í morgun heldur áhugafólk sem hafði lagt leið sína að Grímsvötnum. Upp úr hádeginu munu hins vegar liggja fyrir niðurstöður úr mati vísindamanna. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur er meðal þeirra sem eru í vélinni.

Hjálmar segir því ekki tímabært að segja að gosinu sé lokið: „Alls ekki"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×