Enski boltinn

Fimm Barcelona-menn vildu treyju Scholes - Messi og Xavi of seinir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes í treyju Iniesta eftir leik.
Paul Scholes í treyju Iniesta eftir leik. Mynd/AP
Paul Scholes tilkynnti í dag að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna eftir frábæran 17 ára feril þar sem hann spilaði 676 leiki fyrir Manchester United. Síðasti leikur hans var því á laugardaginn þegar United tapaði 1-3 fyrir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Scholes kom inn á sem varamaður þegar þrettán mínútur voru eftir og náði að gefa boltann fimmtán sinnum áður en dómarinn flautaði leikinn af. Eftir leikinn kepptust fimm stjörnuleikmenn Barcelona um að skipta við hann um treyju.

Xavi, Lionel Messi, Sergio Busquets og Pedro, sem allir áttu flottan leik á Wembley, gengu í átt að Scholes en urðu aðeins of seinir því Andres Iniesta komst fyrst að Scholes og skipti við hann um treyju.

Xavi var örugglega svekktur að fá ekki treyjuna því hann talaði um það í blaðaviðtali í febrúar að Paul Scholes væri besti miðjumaðurinn sem hann hafði séð síðustu 15 til 20 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×