Fótbolti

45 milljónir evra í nýja leikmenn hjá Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barcelona hefur verið afar sigursælt undanfarin ár þótt skuldastaða félagsins sé slæm
Barcelona hefur verið afar sigursælt undanfarin ár þótt skuldastaða félagsins sé slæm Mynd/Getty Images
Þrátt fyrir að tap hafi orðið af rekstri Barcelona á síðasta starfsári hefur Pep Guardiola 45 milljónir evra til að styrkja hópinn. Þetta segir Javier Faus varaforseti rekstrarsviðs félagsins. Vefsíðan goal.com greinir frá.

Evrópumeistararnir hafa verið sterklega orðaðir við Alexis Sanchez hjá Udinese að undanförnu. Þá hafa Giuseppe Rossi og Cesc Fabregas verið nefndir til sögunnar. Faus segir mögulegar tekjur af sölu leikmanna einnig verða notaðar til leikmannakaupa.

Skuldastaða Barcelona er slæm líkt og hjá fjölmörgum stórliðum Evrópu. Heildarskuldir félagsins eru tæpar 500 milljónir evra. Samkvæmt Faus var 21 milljón evra tap á rekstri félagsins á síðasta ári en var 83 milljónir evra árið á undan.

Faus segir félagið ekki mega halda áfram að reka sig með tapi. Mikil vinna hafi farið í að rétta fjárhaginn af undanfarin tvö ár og sú vinna haldi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×