Fótbolti

Barcelona búið að vinna kapphlaupið um Alexis Sanchez

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sanchez í eldlínunni í Argentínu
Sanchez í eldlínunni í Argentínu Nordic Photos
Fulltrúi ítalska knattspyrnuliðsins Udinese greinir frá því að Alexis Sanchez sé við það að ganga til liðs við Evrópumeistara Barcelona. Sanchez hefur verið sterklega orðaður við spænska stórliðið undanfarnar vikur.

Sky Sports fréttamiðillinn greinir frá því að Quique Pina, fulltrúi Udinese á Spáni, hafi sagt að Alexis hafi ákveðið að leika á Spáni. Málið sé því sem næst frágengið. Udinese setti nýlega 50 milljóna evra verðmiða á Sanchez eða sem nemur rúmum átta milljörðum íslenskra króna.

Sanchez er um þessar mundir í eldlínunni með Chile í Suður-Ameríkukeppninni í knattspyrnu. Hann hefur farið á kostum og skoraði fallegt mark í jafntefli gegn Úrúgvæ í síðustu umferð riðlakeppninnar.

Manchester City hefur einnig verið á höttunum eftir Sanchez enda lítur allt út fyrir að Carlos Tevez sé á leið frá félaginu. Manchester United, Chelsea, Inter og Napoli hafa einnig líst yfir áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×