Fótbolti

José Mourinho ræður nú öllu á Bernabéu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho og Jorge Valdano á meðan allt lék í lyndi.
José Mourinho og Jorge Valdano á meðan allt lék í lyndi. Mynd/AP
José Mourinho hefur sannarlega tekið öll völd hjá spænska stórliðinu Real Madrid því hann hefur nú tekið við starfi yfirmanns knattspyrnumála í viðbót við það að þjálfa Real Madrid liðið. Mourinho hafði betur í valdabaráttunni við Jorge Valdano sem var rekinn í vor.

Mourinho átti stóran þátt í því að Valdano hætti hjá félaginu eftir tveggja ára starf en Portúgalinn og Argentínumaðurinn náðu engan veginn saman sem Valdano skrifaði algjörlega á reikning Mourinho. Valdano sagði eftir brottrekstur sinn að tveir mikilvægustu starfsmenn Real Madrid hefðu ekki talað saman í langan tíma.

Mourinho gerði Real Madrid að spænskum bikarmeisturum á sínu fyrsta ári á Bernabéu en liðið náði ekki að stoppa Barcelona í spænsku deildinni eða í Meistaradeildinni. Hann hefur verið að yngja upp í leikmannahópnum í sumar og er greinilega að setja saman framtíðarlið hjá félaginu.

Nánasti samstarfsmaður José Mourinho hjá Real Madrid er nú Zinedine Zidane, fyrrum leikmaður Real og franska landsliðsins, sem er nú titlaður íþróttastjóri en hefur fengið meiri ábyrgð eftir brotthvarf Valdano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×