Fótbolti

Rossi hafnaði Juventus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giuseppe Rossi fagnar marki í leik með Villarreal.
Giuseppe Rossi fagnar marki í leik með Villarreal. Nordic Photos / AFP
Ítalinn Giuseppe Rossi hefur tekið fyrir það að ganga til liðs við Juventus þar sem hann vill frekar spila með Villarreal í Meistaradeild Evrópu.

Juventus hefur verið á höttunum eftir framherja í sumar og vildi fá Sergio Agüero áður en hann gekk til liðs við Manchester City nýverið. Mirko Vucinic kom reyndar til félagsins frá Roma fyrir fimmtán milljónir evra í gær en ítalskir fjölmiðlar halda því engu að síður fram að félagið ætli að fá sér annan framherja áður en félagaskiptaglugginn lokar.

Það eru þó litlar líkur á því að það verði Rossi. „Ég er ekki lengur að hugsa um Juventus. Mér líður vel hjá Villarreal og er ánægður hjá félaginu. Ég vil fá að upplifa eitthvað nýtt með liðsfélögum mínum í vetur,“ sagði Rossi við ítalska fjölmiðla.

Rossi hefur verið hjá Villarreal í fjögur ár en hann var á mála hjá Manchester United á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×