Fótbolti

Porto búið að selja Falcao til Atletico fyrir 40 milljónir evra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao (næst myndavélinni) fagnar hér sigri í Evrópudeildinni með Porto.
Radamel Falcao (næst myndavélinni) fagnar hér sigri í Evrópudeildinni með Porto. Mynd/Nordic Photos/Getty
Portúgalska félagið FC Porto hefur samþykkt það að selja Kólumbíumanninn Radamel Falcao til spænska liðsins Atletico Madrid fyrir 40 milljónir evra. Kaupverðið gæti á endanum hækkað upp í 47 milljónir evra gangi Falcao allt í haginn í spænska boltanum.

Falcao hefur gælunafnið Tígri og var algjör lykilmaður í frábærum árangri Porto á síðustu leiktíð. Falcao skoraði alls 34 mörk á tímabilinu 2010-11 og hjálpaði Porto að vinna fjóra titla þar á meðal Evrópudeildina þar sem hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum í Dublin.

Porto græddi mikið á Falcao sem félagið keypti á aðeins 3,93 milljónir evra frá argentínska félaginu River Plate árið 2009.

Falcao er 25 ára framherji sem er þekktur fyrir skallagetu sína þótt að hann sé ekki hár í loftinu. Hann mun fylla í skarð Sergio Aguero sem Atletico seldi á dögunum til Manchester City.

Falcao var reyndar ekki eini leikmaðurinn sem Atletico keypti frá Porto því félagið borgaði að auki 5 milljónir evra fyrir miðjumanninn Ruben Micael.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×