Fótbolti

Guardiola jafnaði met Johan Cruyff hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona fagnar þeim Cesc Fabregas og Javier Mascherano í gær.
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona fagnar þeim Cesc Fabregas og Javier Mascherano í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, vann í gær sinn ellefta titil sem þjálfari félagsins og jafnaði þar með metið sem Hollendingurinn Johan Cruyff átti einn áður. Barcelona tryggði sér þá sigur í spænska Ofurbikarnum með 3-2 sigri á erkifjendunum í Real Madrid í seinni leik liðanna en þeim fyrri lauk með 2-2 jafntefli í Madrid.

Johan Cruyff vann ellefu titla með Barcelona á árunum 1988-1996 en leikmaðurinn Josep Guardiola fékk einmitt tækifærið hjá Cruyff á sínum tíma og vann tíu af þessum ellefu titlum sem Barcelona vann í tíð Cruyff.

Guardiola er aðeins á sínu fjórða tímabili með Barcelona sem gerir afrek hans enn glæsilegra. Barcelona hefur unnið spænska meistaratitilinn öll árin, Meistaradeildarinnar tvisvar á þremur árum og vann nú Ofurbikarinn þriðja árið í röð.

Guardiola gæti bætt við tveimur fleiri titlum áður en árið 2011 er liðið því framundan er leikur um Ofurbikar UEFA við Porto (Mónakó 26. ágúst) og þátttaka í Heimsmeistarakeppni félagsliða í Japan í desember.

Titlar Barcelona undir stjórn Pep Guardiola:

Spænska deildin 3 (2009, 2010, 2011)

Spænski bikarinn 1 ( 2009)

Spænski ofurbikarinn 3 (2009, 2010, 2011)

Meistaradeild Evrópu 2 (2009, 2011)

Ofurbikar UEFA 1 (2009)

Heimsmeistarakeppni félagsliða 1 (2009)

Titlar Barcelona undir stjórn Johan Cruyff:

Spænska deildin 4 (1991, 1992, 1993, 1994)

Spænski bikarinn 1 (1990)

Spænski ofurbikarinn 3 (1991, 1992, 1994)

Evrópukeppni Meistaraliða 1 (1992)

Evrópukeppni félagsliða 1 (1989)

Ofurbikar UEFA 1 (1992)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×