Fótbolti

Sögulegt á Ítalíu: Bandaríkjamenn búnir að eignast A.S. Roma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas DiBenedetto.
Thomas DiBenedetto. Mynd/Nordic Photos/Getty
Boston-maðurinn Thomas DiBenedetto fer fyrir bandarískum fjárfestum sem hafa nú eignast ítalska félagið A.S. Roma en þeir eru þar með fyrstu útlendingarnir sem eiga fótboltalið í ítölsku A-deildinni.

Samningaviðræður hafa verið í gangi síðan í apríl en fjárfestarnir fjórir eiga nú tæplega tvo þriðju í A.S. Roma. Þeir keyptu sinn hluta fyrir um hundrað milljónir dollara eða um 11,4 milljarða íslenskra króna. Hinir þrír eru James Pallotta (á hlut í Boston Celtics), Michael Ruane og Richard D’Amore.

Unicredit bankinn á enn 40 prósent í A.S. Roma en hann tók eignarhluta sinn upp í skuldir  Sensi-fjölskyldunnar í fyrra.

DiBenedetto gekk frá kaupunum í Róm í dag en hann verður ekki forseti félagsins fyrr en eftir næsta stjórnarfund. Næst á dagskrá hjá honum er að ferðast til Slóvakíu þar sem Roma mætir heimamönnum í Slovan Bratislava í forkeppni Evrópudeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×