Fótbolti

Guardiola: Real Madrid er ennþá betra en Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, segir að Real Madrid sé á undan sínu liði í undirbúningi fyrir tímabilið og sé því sigurstranglegra í kvöld þegar liðin mætast Camp Nou í seinni leik þeirra í Ofurbikarnum á Spáni.

Liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum í Madrid á sunnudagskvöldið en þá fóru leikmenn Real illa með mörg úrvalsfæri.

„Í fyrri leiknum var Real Madrid betra liðið og þó að við höfum bætt okkur á þessum þremur dögum þá held ég að þeir séu ennþá með betra lið. Það væri allt önnur staða ef að seinni leikurinn væri eftir tvær vikur," sagði Pep Guardiola hreinskilinn en Barcelona hefur ekki æft mikið með fullskipaðan hóp.

Lionel Messi fékk frí eftir Copa America og þeir Xavi og Carlos Puyol hafa verið að glíma við meiðsli. Barcelona hefur líka keypt þá Alexis Sanchez og Cesc Fabregas sem þurfa væntanlega tíma til að aðlagast leik liðsins.

„Við verðum að spila betur í kvöld en við gerðum á Santiago Bernabeu ef við ætlum að vinna Ofurbikarinn. Við þurfum að auka hraðann í okkar leik en það er gott að vita að við höfum æft vel undanfarna þrjá daga," sagði Guardiola en hann staðfesti að Cesc Fabregas verði í leikmannahópnum í kvöld þó að ekki sé vitað hvort hann sé í byrjunarliðinu.

Leikur Barcelona og Real Madrid hefst klukkan 21.00 í kvöld að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×