Fótbolti

Fabregas um Wenger: Ég mun aldrei geta þakkað honum að fullu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesc Fabregas lofaði Arsene Wenger, stjóra Arsenal, á blaðamannafundi þegar Fabregas var kynntur til leiks sem nýr leikmaður Barcelona. Fabregas skrifaði undir fimm ára samning í hádeginu.

Fabregas kom til Wenger þegar hann var sextán ára gamall og fimm árum seinna var hann orðinn fyrirliði Arsenal-liðsins, staða sem hann gegndi í þrjú tímabil.

„Ég mun aldrei geta þakkað honum að fullu fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir mig. Ég mun aldrei gleyma honum," sagði Cesc Fabregas um franska stjórann á blaðamannafundinum og hann reyndi líka að breyta ímynd Wenger í huga spænsku blaðmannanna.

„Ég held að Wenger hafi ekki alltof góða ímynd hérna enda hafa menn ekki málað rétta mynd af honum. Ég get ekki komið aðdáun minni á honum í orð en það er honum að þakka að ég er hérna í dag," sagði Cesc Fabregas.

„Ég kem hingað fullur auðmýktar því ég á mikið erfir ólært. Ég veit að ég á eftir að læra mikið af þessum þjálfara og af þessu frábæra liði," sagði Cesc Fabregas.

„Ég hef spilað með tveimur þeirra síðan ég var 13 ára [Lionel Messi and Gerard Pique] og mörgum hinna með landsliðinu síðan ég var átján ára. Ég þekki þá því mjög vel," sagði Fabregas.

„Ég veit að ég mun njóta þess að spila með Barcelona og ég veit líka að ég get lagt eitthvað að mörkum til þessa liðs. Ég mun gera mitt besta til að gera liðið enn sterkara," sagði Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×