Fótbolti

Celtic gæti komist í Evrópudeildina eftir allt saman

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Joe Ledley og Jose Goncalves í baráttu í fyrri leik liðanna á Celtic Park í Skotlandi.
Joe Ledley og Jose Goncalves í baráttu í fyrri leik liðanna á Celtic Park í Skotlandi. Nordic Photos/Getty Images
Það vakti athygli á drættinum í riðla Evrópudeildarinnar í dag að fyrirvari var settur á þátttöku Sion frá Sviss. Celtic, sem beið lægri hlut gegn Sion í forkeppninni, hefur lagt fram kvörtun vegna þess að félagið telur Svisslendingana hafa notast við ólöglega leikmenn.

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Celtic, staðfesti þetta að loknu 3-1 tapi skoska liðsins gegn Sviss í gær. Bæði Celtic og Rangers duttu út úr keppninni í gær og á Skotland engan fulltrúa í riðlum Evrópukeppnanna.

„Málið verður tekið fyrir á þriðjudag og þá fáum við að vita niðurstöðuna," sagði Lennon og hafði á orðið að eitt yrði yfir öll félög að ganga.

Pascal Feindouno, Mario Mutsch, Gabri, Jose Goncalves og Billy Ketkeophombhone voru í leikmannahópi Sion í Evrópudeildinni þrátt fyrir úrskurð Alþjóðaknattspyrnusambandsins um að leikmennirnir væru ekki gjaldgengir sökum félagaskiptabanns frá árinu 2010. Feindouno skoraði tvö af mörkum Sion í gærkvöld.

Knattspyrnusamband Sviss úrkurðaði að leikmennirnir væru gjaldgengir eftir að Sion vann mál fyrir rétti í heimalandinu. Evrópska knattspyrnusambandið UEFA varaði þó Svisslendingana við því að FIFA ætti síðasta orðið um hvort fimmmeningarnir væru löglegir eður ei.

Málið er nú á borði Íþróttamáladómstólsins og staðfesti dómstóllinn félagaskiptabann FIFA er líklegt að Sion yrði refsað sem gæti þýtt að félaginu væri meinað að spila í riðlakeppni Evrópudeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×