Fótbolti

Mourinho ekki á förum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho þvertekur fyrir að það sé eitthvað hæft í þeim sögusögnum um að hann sé að hætta störfum hjá Real Madrid.

Mourinho ritaði bréf til stuðningsmanna Real Madrid þar sem þetta kemur fram. Hann bað einnig stuðningsmenn afsökunar á framkomu sinni í leik liðsins gegn Barcelona.

Barcelona vann þá 3-2 sigur á Real Madrid en upp úr sauð undir lok leiksins. Meðal þess sem gerðist þá var að Mourinho potaði í auga aðstoðarþjálfara Barcelona.

Spænska knattspyrnusambandið er að rannsaka málið og gæti Mourinho fengið tólf leikja bann ef hann verður fundinn sekur.

„Ég vil biðja stuðningsmenn afsökunar á hegðun minni í síðasta leik okkar,“ skrifaði Mourinho. „Sumum gengur betur en mér að taka þátt í hræsninni sem viðgengst í knattspyrnuheiminum. Þeir fela andlit sín og tala lágum rómi í ganginum á leið í búningsklefana.“

Hann segir að honum semji vel við forseta Real Madrid og að þeim sé vel til vina. „Það eru bara þeir sem þekkja ekkert til mín sem láta sér detta í hug að ég sé á leið frá Real Madrid á þessum tímapunkti. Það hefur komið mörgum á óvart hversu vel Real Madrid hefur spilað á undirbúningstímabilinu og það kæmi þeim mjög á óvart ef ég myndi fara nú. Það er ómögulegt!“

Real Madrid mætir Galatasaray í æfingaleik á heimavelli sínum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×