Fótbolti

Forseti Villarreal telur að spænsk knattspyrna sé að deyja

Stefán Árni Pálsson skrifar
Leikmenn Villareal réðu ekkert við Messi í gær.
Leikmenn Villareal réðu ekkert við Messi í gær. Mynd. / Getty Images
Fernando Roig, forseti Villarreal, lætur spænska knattspyrnusambandið heyra það í fjölmiðlum og segir að verið sé að drepa smærri liðin í deildinni.

Roig kallar eftir breytingum í spænska boltanum svo ekki verði alltaf um tveggja hesta kapphlaup að ræða eins og hefur verið undanfarinn ár.

Barcelona og Real Madrid berjast ávallt um titilinn og ná önnur lið sjaldan að ógna þeim.

„Ef við viljum að deildin snúist aðeins um tvær viðureignir, þá höldum við áfram með sama fyrirkomulag en ég er viss um að fáir vilji slíkt. Annaðhvort verður breyting á eða við eigum eftir að drepa spænska knattspyrnu," sagði Roig við spænska fjölmiðla.

Villarreal tapaði 5-0 gegn Barcelona í fyrstu umferð spænsku deildarkeppninnar og félagið átti í raun aldrei möguleika gegn meisturunum.

Real Madird sigraði síðan Real Zaragoza 6-0 um helgina, en það er nokkuð ljóst að aðeins tvö lið eiga eftir að berjast um meistaratitilinn.

„Ég þarf að selja leikmenn til að halda félaginu gangandi fjárhagslega á meðan aðrir fá endalaus lán og virðast hafa töluvert dýpri vasa en önnur lið".

„Barcelona átti sigurinn fullkomlega skilið í gær, þeir léku óaðfinnanlega á meðan við vorum virkilega lélegir".

Auk þess fá Barcelona og Real Madrid gríðarlegar fjárhæðir fyrir sjónvarpsrétt á meðan önnur félög fá lítið sem ekkert miðað við risana tvo. Roig telur að á meðan ástandið sé svona þá sé ekki hægt að keppa við spænsku stórveldin, bilið mun aðeins verða breiðara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×