Fótbolti

Hargreaves og Inzaghi spila ekki í Meistaradeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fróðlegt verður að sjá hvernig Hargreaves tekur sig út í ljósbláum búningi City.
Fróðlegt verður að sjá hvernig Hargreaves tekur sig út í ljósbláum búningi City. Mynd / www.mcfc.co.uk
Félögin 32 sem skipa riðlana átta í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu þurfa að skila 25 manna lista til evrópska knattspyrnusambandsins í dag. Nú þegar er ljóst að tvö stór nöfn komast ekki í hópinn hjá félögum sínum. Owen Hargreaves hjá Manchester City og Filippo Inzaghi framherji AC Milan.

Kaup Manchester City á Owen Hargreaves hafa vakið töluverða athygli. Í fyrsta lagi var Hargreaves síðast á mála hjá erkifjendunum í United og þá hefur hann glímt við þrálát meiðsli undanfarin þrjú ár.

Hann er líklega hugsaður sem varaskeifa fyrir Hollendinginn Nigel de Jong á miðju City en á þó töluvert í land með að komast í leikform að mati Roberto Mancini, stjóra City. Mancini telur að Hargreaves þurfi að leggja hart að sér í hálfan annan mánuði til viðbótar áður en hann geti byrjað að spila fyrir City.

Leikmannahópur félagsins er gríðarlega sterkur og Wayne Bridge er annar leikmaður sem verður ekki í 25 manna hópnum sem tilkynntur verður síðar í dag.

Inzaghi, sem er orðinn 38 ára, missti líklega sæti sitt til miðjumannsins Antonio Nocerino sem keyptur var til Milan frá Palermo á lokadegi félagaskiptagluggans. Baráttan um framherjastöðuna hjá Milan er hörð en Pato, Robinho, Cassano og Zlatan eru allir á undan Inzaghi í röðinni hjá stjóranum Massimiliano Allegri.

Inzaghi er næstmarkahæsti leikmaður í Evrópukeppnum frá upphafi með 70 mörk. Spánverjinn Raul, leikmaður Schalke, hefur skorað tveimur mörkum meira. Inzaghi hefur skorað 46 markanna í Meistaradeildinni og tvívegis verið í sigurliði AC Milan í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×