Fótbolti

Barcelona svaraði gagnrýninni með 8-0 sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Börsungar fagna í dag.
Börsungar fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Barcelona komst í dag aftur á sigurbraut eftir að hafa gert tvö jafntefli í röð. Liðið rústaði Osasuna á heimavelli sínum með 8-0 sigri.

Lionel Messi skoraði þrennu í leiknum en David Villa kom næstur með tvö mörk. Þeir Cesc Fabregas og Xavi skoruðu einnig en eitt markanna var sjálfsmark Osasuna.

Barcelona gerði óvænt jafntefli við Real Sociedad um síðustu helgi og svo gegn AC Milan í Meistaradeildinni í vikunni. Voru leikmenn liðsins gagnrýndir nokkuð harkalega í fjölmiðlum ytra eftir báða leiki.

Carles Puyol var í byrjunarliði Barcelona í fyrsta sinn í langan tíma vegna meiðsla og þá lék Cesc Fabregas frá upphafi vegna meiðsla Andres Iniesta.

Pep Guardiola stillti upp þriggja manna varnarlínu með þá Javier Mascherano og Eric Abidal við hlið Puyol en Dani Alves lék á hægri kantinum í kvöld.

Þeir Fabregas, Xavi, Sergio Busquets og Thiago léku svo á miðjunni og er skemmst frá því að segja að Börsungar höfðu mikla yfirburði í leiknum.

Barcelona er nú komið með sjö stig eftir þrjá leiki en Real Madrid á leik á morgun er liðið mætir Racing Santander á útivelli. Valencia vann fyrr í dag 1-0 sigur á Sporting Gijon á útivelli og er með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×