Fótbolti

Benzema í Real Madrid: Við erum sterkasta liðið í spænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema fagnar með félögum sínum.
Karim Benzema fagnar með félögum sínum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Karim Benzema, franski landsliðsframherjinn hjá Real Madrid, var ánægður með 3-0 sigur Real Madrid á Villarreal í spænsku deildinni í gærkvöldi. Benzema skoraði fyrsta mark Real í leiknum og hefur skorað fjögur mörk í deildinni til þessa á tímabilinu.

„Ég er hrifinn að einnar snertingar fótboltanum sem Real Madrid er að spila þessa dagana og við erum líka öflugir í skyndisóknunum. Við vorum frábærir í kvöld og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Við erum sterkasta liðið í spænsku deildinni að mínu mati," sagði Karim Benzema.

Real Madrid skoraði öll þrjú mörkin sín í fyrri hálfleiknum en Angel di Maria skoraði eitt mark og lagði upp hin tvö fyrir Benzema og Kaká.

„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkar lið. Það skiptir ekki öllu þótt Pipa [Gonzalo Higuain] eða ég skori mörkin. Okkar markmið er að hjálpa liðinu og það mikilvægast í fótbolta er að vinna leikina," sagði Benzema. Gonzalo Higuain kom inn á fyrir Benzema í þessum leik en argentínski framherjinn hefur skorað 8 mörk í þeim 4 deildarleikjum sem hann hefur verið í byrjunarliði Real á tímabilinu.

Levante hefur eins og er eins stigs forskot á Real Madrid á toppi spænsku deildarinnar en Real-liðið hefur unnið fimm síðustu deildarleiki sína með markatölunni 21-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×