Fótbolti

Cristiano Ronaldo með þrennu í fyrri hálfleik í 4-0 sigri Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo lætur vaða í kvöld.
Cristiano Ronaldo lætur vaða í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cristiano Ronaldo skoraði þrennu þegar Real Madrid vann 4-0 útisigur á spútnikliðinu Málaga í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Öll mörk Real-liðsins komu í fyrri hálfleiknum en liðið komst á toppinn með þessum sannfærandi sigri.

Argentínumaðurinn Gonzalo Higuaín skoraði fyrsta markið á 11. mínútu eftir sendingu frá landa sínum Ángel Di María og Di María lagði líka upp mark fyrir Cristiano Ronaldo á 24. mínútu.

Cristiano Ronaldo bætti síðan við mörkum á 28. og 38. mínútu en það seinna skoraði Ronaldo með glæsilegri viðstöðulausri hælspyrnu eftir hornspyrnu.

Cristiano Ronaldo hefur þar með skorað 10 mörk í spænsku deildinni í aðeins átta leikjum en hann var ekki búinn að skora í tveimur leikjum í röð sem þykir mikið á þeim bænum.

Gonzalo Higuaín er aftur á móti búinn að skora í fjórum leikjum í röð og alls níu mörk í þeim fjórum leikjum sem hann hefur verið í byrjunarliðinu í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Real Madrid hefur 19 stig eða tveimur stigum meira en Barcelona sem mætir Sevilla seinna í kvöld. Sevilla getur náð öðru sætinu af Barcelona með sigri á Nývangi í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×