Fótbolti

Fabregas verður aftur með Barcelona á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas og Lionel Messi hafa náð vel saman.
Cesc Fabregas og Lionel Messi hafa náð vel saman. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cesc Fabregas er búinn að ná sér af meiðslunum og verður með Barcelona á móti Seville í spænsku deildinni á morgun. Fabregas hefur verið frá í þrjár vikur eftir að hafa tognað aftan í læri á æfingum með Barcelona 1. október síðastliðinn.

„Cesc Fabregas er klár í slaginn á ný eftir að læknaliðið gaf honum grænt ljós. Miðjumaðurinn hefur misst úr þrjá leiki en verður leikfær í Sevilla-leiknum," stóð í frétt á heimasíðus Barcelona.

Fabregas missti af deildarleikjum á móti Sporting Gijon og Racing Santander, Meistaradeildarleik á móti Plzen auk tveggja landsleikja á móti Skotum og Tékkum.

„Cesc var í frábæru formi áður en hann meiddist og var búinn að skora fimm mörk í níu leikjum. Hann bauð þjálfaranum upp á nýja möguleika í miðjuspili liðsins sem voru ekki í boði áður en hann kom," sagði ennfremur í umræddri frétt.

Varnarmaðurinn Defender Gerard Pique, framherjinn Alexis Sanchez og miðjumaðurinn Ibrahim Afellay sitja hinsvegar áfram á meiðslalistanum.

Barcelona og Levante eru efst og jöfn með 17 stig og Real Madrid kemur síðan stigi á eftir. Barcelona setti nýtt félagsmet í vikunni með því að leika þrettán fyrstu leiki tímabilsins án þess að tapa.

Barcelona skoraði 22 mörk í fyrstu fimm deildarleikjum sínum með Fabregas sem átti þátt í átta þeirra (4 mörk og 4 stoðsendingar).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×