Fótbolti

Messi: Mér er alveg sama hver skorar

Messi fagnar um helgina.
Messi fagnar um helgina.
Hinn hógværi Argentínumaður, Lionel Messi, hrósaði liðsfélögum sínum í hástert um helgina en hann skoraði þá þrennu gegn Mallorca. Það var þriðja þrennan hans í vetur.

Messi er nú búinn að skora 199 mörk fyrir Barcelona og er aðeins 36 mörkum á eftir Cesar Rodriguez sem hefur skorað flest mörk í sögu félagsins.

"Liðið lék vel eina ferðina enn," sagði Messi sem hafði ekki skorað í þrem leikjum. "Það er brjálæði að halda því fram að ég sé í einhverri krísu þó svo ég skori ekki í þrem leikjum. Mér er alveg sama hver skorar á meðan liðið vinnur sína leiki."

Talsvert var rætt um fagnið í þriðja markinu en þá hélt Messi þremur fingrum á loft. Margir töldu hann vera að svara gagnrýni um frammistöðu sína í leikjunum þremur á undan.

"Þetta hafði ekkert með slíkt að gera. Þetta voru skilaboð til vinar í heimalandinu sem bað mig um að fagna svona."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×