Fótbolti

Zlatan: Ég sagði Guardiola að fara til helvítis

Zlatan og Guardiola töluðust ekki við eftir að Zlatan hafði látið þjálfarann heyra það.
Zlatan og Guardiola töluðust ekki við eftir að Zlatan hafði látið þjálfarann heyra það.
Ævisaga Svíans Zlatan Ibrahimovic kemur út á næstunni og Aftonbladet hefur verið að birta valda kafla úr bókinni í auglýsingarskyni. Þar kemur ýmislegt áhugavert fram eins og búast mátti við frá hinum lítríka framherja.

Zlatan viðurkennir í bókinni að hafa misst algjörlega stjórn á skapi sínu eftir 4-1 sigur Barcelona á Villarreal leiktíðina 2009-10. Hann lét einnig Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, heyra það og náði engu sambandi við stjörnur Barcelona-liðsins.

"Ég öskraði á Guardiola að hann væri algjörlega kjarklaus. Ég sagði líklega fleiri verri hluti líka. Ég sagði síðan að hann væri að drulla á sig af hræðslu út í Mourinho. Hann gæti því farið til helvítis. Ég trompaðist alveg og ef ég hefði verið Guardiola hefði ég orðið hræddur," segir Zlatan i fyrsta kafla bókarinnar.

Zlatan talar einnig um samskipti sín við Messi, Iniesta og Xavi.

"Andrúmsloftið í klefanum hjá Barcelona var of rólegt fyrir minn smekk. Messi, Iniesta og Xavi hlýddu alltaf öllu án þess að setja út á neitt. Þeir voru eins og litlir skólastrákar. Ég er ekki þannig og gat ekki verið neitt annað en ég sjálfur."

Zlatan var seldur eftir aðeins eitt ár hjá Barcelona enda passaði hann engan veginn inn í hópinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×